Monday, February 25, 2008

Star Wars Episode IV: A New Hope

A New Hope er óneitanlega ein áhrifamesta bíómynd allra tíma. Mörgum finnst hún besta Star Wars myndin en persónulega finnst mér hún næstbest. Ég horfði á hana margoft þegar ég var lítill og hlýt að hafa séð hana svona 100 sinnum. En þegar ég horfði á hana núna um jólin reyndi ég að horfa á hana með augum kvikmyndagagnrýnanda sem ég hef aldrei gert áður.

Hún hefur alla þá þætti sem góð bíómynd þarf að hafa. Góða leikara og leikstjórn, frábæran söguþráð og persónur, byltingakenndar tæknibrellur og epíska tónlist. En þrátt fyrir allt þetta komu vinsældir myndarinnar öllum á óvart, jafnvel Lucas sjálfum. Reyndar er hálfáránlegt að vinsældir hennar hafi ekki komið einhverjum á óvart því hún varð svo sjúklega vinsæl.

Ekki má gleyma því að þessi mynd er 30 ára gömul. Þó næstum öll eintök af myndinni í dag séu með endurnýjuðum tæknibrellum voru upprunalegu brellurnar samt geðveikar og vöktu gríðarlega athygli.

Geðveikt skot.

Það var líka þessi mynd sem gerði Harrison Ford frægan. Persónulega finnst mér hann besti leikarinn í myndunum á eftir Alec Guinness sem er fullkominn í sínu hlutverki. Lucas hefði heldur ekki getað valið betri raddleikara fyrir Darth Vader, James Earl Jones gerir þetta meistaralega.

Ég held að ef þessi mynd hefði komið út á þessu ári hefði hún ekki verið nærri því eins góð. Mistökin sem Lucas gerði í nýju myndunum voru þau að hann lagði mesta áherslu á tæknibrellur og vanrækti hitt. Það að fá áhættuleikara til að hoppa í heljarstökk fyrir gömlu leikarana eða jafnvel tölvuteikna einhver backflips fyrir þá voru stór mistök og sem betur fer vantaði það í þessa mynd. Ég get ekki gefið henni minna en 5/5 stjörnur.