Wednesday, April 16, 2008

Lokafærslan


Þessi áfangi hefur verið sá áhugaverðasti og skemmtilegasti sem ég hef tekið í minni skólagöngu. Hann kom mjög á óvart þar sem ég hafði heyrt frá öllum þeim sem höfðu farið í kvikmyndafræði á undan að þetta væri afar leiðinlegt og misheppnað fag. Við ákváðum þó nokkrir að gefa þessu séns því Sigurður Páll átti að hafa tekið verulega til í faginu til þess að gera þetta áhugaverðara og skemmtilegra. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bíomyndum og stuttmyndagerð og lengi viljað verða fróðari um kvikmyndagerð.
Það kom svo í ljós að þetta var fullkomið valfag með öllu raungreinanáminu í 6. bekk og fór langt fram úr væntingum. Persónulega fannst mér bloggið sniðugasta pælingin vegna þess að það fékk mig til þess að kafa dýpra í bíómyndir sem ég horfði á til þess að geta skrifað þúsundir orða um þær sem ég horfði á í vetur og þar sem ég hafði aldrei haldið blogg eða tjáð mig opinberlega um svona hluti lærði ég margt á þessu. Stuttmyndagerðin var auðvitað snilld og ég sé eftir að hafa ekki eytt meiri tíma í þær 2 sem við gerðum á árinu.


Mér fannst sérstaklega gaman hvað Siggi Palli var opinn fyrir tillögum og sveigjanlegur í kennslu en þá á ég kannski aðallega við tillögu Jóns um dómskerfi bloggfærslanna. Hann hefur líka verið furðulega þolinmóður gagnvart fyrirlestra- og stuttmyndaseinkunum og á hrós skilið fyrir það.
RIFF-hátíðin og leikstjóraheimsóknir brutu námið skemmtilega upp. Allar myndirnar sem ég sá á RIFF-hátíðinni voru mjög skemmtilegar og áhugaverðar að mínu mati. Ég hafði aldrei farið á kvikmyndahátíð áður og taldi afar ólíklegt að ég gæti haft áhuga á því sem þar væri sýnt en eins og svo margt annað þá kom þetta skemmtilega á óvart. Þó ég hafi persónuleg ekki sérstaklega gaman af íslenskum bíómyndum fannst mér skemmtilegt að fara og sjá bíómyndir eftir leikstjóra sem við fengum svo í heimsókn. Þeir útskýrðu líka margt áhugavert um kvikmyndagerð sem ég hafði ekki hugmynd um.


Bíómyndatímarnir eftir skóla voru afar skemmtilegir því í þeim voru sýndar áhugaverðar bíómyndir sem ég hefði annars ekki horft á. Allar þær bíómyndir sem ég hef horft á í tengslum við þennan áfanga í vetur finnst mér hafa víkkað sjóndeildarhringinn og vakið áhuga minn á mörgum gerðum kvikmynda.
Hins vegar er auðvitað fáránlegt að við séum að fara taka skriflegt próf úr bók sem enginn hefur lesið sem gildir 50% af lokaeinkunn í þessu fagi. Ég veit að þú gast ekkert gert í því máli Siggi en það þarf að hrauna yfir þetta. Þetta skiptir þó afar litlu máli í mínum augum.
Ef ég ætti að benda á eitthvað sem ég hefði viljað læra frekar þá væri það meiri umfjöllun um nútímakvikmyndagerð.

Ég gæti talað áfram endalaust en vil enda þetta á að þakka kærlega fyrir veturinn og hrósa Sigga Palla fyrir frábæra frammistöðu! 5/5 stjörnur.

Sunday, April 6, 2008

Man Bites Dog

Ben: Usually I start the month with a postman.

Mér finnst Man Bites Dog vera áhugaverðasta myndin sem við höfum horft á í skólanum í vetur en hún fjallar um heimildarmyndagerð um ógeðslegustu persónu sem ég hef séð í bíómynd hingað til. Benoît Poelvoorde tekst með ótrúlega góðum leik að skapa fjöldamorðingja sem er algjörlega iðrunarlaus og sterkt dæmi um mann með alvarlega andfélagslega persónuleikaröskun sem Árni flutti einmitt fyrirlestur um í tímanum á undan þeim sem við sáum þessa mynd í. Það sem er svo ógeðslegt við hann er hversu eðlilegur og kammó hann getur verið en myrðir og rænir saklaust fólk sér til viðurværis eins og ekkert sé eðlilegra. Besta dæmið um þetta úr myndinni fannst mér vera clipið að neðan úr afmælinu hans þegar hann er nýkominn af spítala.


Það sem mér fannst svo shockerandi við þessa mynd var hversu trúverðug hún var. Ég vissi ekkert um þessa mynd áður en ég sá hana og var lengi að fatta mig á því hvað væri í gangi vegna þess að við sjáum hana sem low-budget heimildarmynd.

Það sem situr samt fastast í mér var atriðið þegar hann kæfði lítinn krakka eftir að hafa myrt foreldra hans og heldur á meðan smá ræðu fyrir myndavélina um það hvað hann sé í raun minnst fyrir að drepa börn. Benoît var óhugnarlega sannfærandi í þessari mynd og nú er einn af mínum uppáhalds leikurum.

Aðalpersónan og upptökucrew-ið heita allir sínum raunverulegu nöfnum í myndinni og eru allir skráðir leikstjórar myndarinnar. Ég gef myndinni 5/5 stjörnur fyrir frumleik, geðveika persónusköpun og leik og mæli eindregið með henni.