Sunday, March 9, 2008

Hearts of Darkness - A Filmmaker's Apocalypse

Heimildarmyndin Hearts of Darkness - A Filmmaker's Apocalypse segir frá gerð stórmyndarinnar Apocalypse Now og er talin vera besta "making of" mynd allra tíma. Hún segir frá öllum þeim vandræðum sem leikstjórinn Francis Ford Coppola, sem leikstýrði m.a. öllum Godfather myndunum, þurfti að klást við við gerð myndarinnar. Kostnaðurinn fór langt fram yfir áætlun, tökur myndarinnar tóku miklu lengri tíma en búist var við, skipta þurfti um aðalleikara í miðjum tökum og monsúnregnið skall á við tökur myndarinnar. Marlon Brando ætlaði meira að segja að stinga af með þá milljón dollara sem Coppola hafði látið hann fá fyrirfram fyrir tökur myndarinnar vegna þess að Coppola var á eftir áætlun. Allt stefndi í gjaldþrot Coppola sem var orðinn milljónamæringur eftir Godfather 1 og 2 og fjármagnaði Apocalypse Now alveg sjálfur.

Francis Ford Coppola

Ég var mjög hrifinn af þessari mynd. Hún útskýrir vel allt í kringum gerð myndarinnar og meira til. Ég fíla líka viðhorf Coppola hjónanna til fjármagns myndarinnar. Þau eru ekkert að stressa sig yfir þeim gríðarlegu fjármunum sem Francis setti í gerð myndarinnar sem virtist lengi vel ætla að hrynja og verða að engu. Francis er sannur listamaður og ég tek undir það með honum þegar hann útskýrir í lok myndarinnar hvernig tæknivæðing kvikmyndageirans sé að eyðileggja þá kvikmyndagerðarlist með þeirri fyrirhöfn sem hann sýnir glögglega í þessari heimildarmynd. Ég gef henni 4/5 stjörnur.